Sjálfbærni

Árs- og sjálfbærniskýrsla Reita fasteignafélags 2023

Sjálfbærniskýrsla Reita 2023

Reitir eru Nasdaq ESG Transparency Partner og sem slíkur leggjum við áherslu á gegnsæja upplýsingagjöf og hækkun viðmiða í umhverfismálum. Sjálfbærniskýrslan er unnin í samræmi við UFS-leiðbeiningar Nasdaq og skiptist í þrjá meginkafla; umhverfi (E), félagslega þætti (S) og stjórnarhætti (G) auk þess sem nú eru í fyrsta sinn birtar upplýsingar í takt við flokkunarreglugerðina (EU Taxonomy).

Við vistvottum öll okkar þróunarverkefni

Með því að huga vel að öllum þáttum sjálfbærni í upphafi trúum við því að við séum að skapa hverfi og byggingar sem standist tímans tönn. Meginhluti kolefnisspors bygginga myndast á byggingartíma þeirra. Með því að fókusa á það höfum við mest áhrif.

Korputún
Fyrsta BREEAM vottaða atvinnuhverfið á Íslandi. Fyrsta skref vottunar er þegar staðfest.

Staðfesting á fyrsta skrefi BREEAM Communities vottunar felst í því að öll grunngögn sem unnin voru fyrir deiliskipulagið hafa verið samþykkt og hefur Korputún því fengið „Interim Assessment“ eða bráðabirgðavottun.


Grunngögnin voru samþykkt af BREEAM án athugasemda sem staðfestir gæði gagna og vandaða vinnu matsaðila.

Nánari upplýsingar um Korputún á www.korputun.is

Samgöngumiðað skipulag

Hverfið er byggt upp í kringum Borgarlínuna og gert er ráð fyrir að hún komi til Mosfellsbæjar um svipað leyti og uppbyggingu í hverfinu lýkur. Eins verða lagðir hjólastígar með tengingar við stofnstígakerfi höfuðborgarsvæðisins og því verður auðvelt fyrir starfsfólk á svæðinu að nota aðra ferðamáta en einkabílinn og hvatt verður til þess m. a. með fræðslu.

Varðveisla lífríkisins

Skipulagið gerir ráð fyrir að byggð verði að lágmarki 100 metrum frá ánni til að þrengja á engan hátt að náttúrulegu flóðasvæði árinnar og til að varðveita lífríkið og náttúruna sem þar er. Útivistarstígur verður lagður á milli byggðar og ár til að bæta aðgengi að svæðinu og vernda viðkvæma náttúru við ána.

Samnýting og hringrásarhugsun

Hverfið er skipulagt þannig að samnýting bílastæða, sorpgeymslna og annarra stoðrýma geti verið sameiginleg í inngörðum. Hönnunin gerir þannig göturýmin minni og skalann þar með mannlegri fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Okkar heimsmarkmið

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er framkvæmdaáætlun í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar. Með stefnu Reita um samfélagslega ábyrgð einsetjum við okkur að stíga afgerandi skref til sjálfbærrar framtíðar innan þeirra málaflokka sem snúa að okkar starfsemi.

Starfsfólk Reita fór í sameiningu yfir heimsmarkmiðin og skoðaði starfsemina í samhengi við framkvæmdaáætlunina. Niðurstaða þeirrar vinnu var að Reitir geti helst beitt sér í flokkunum (8) Góð atvinna og hagvöxtur, (11) Sjálfbærar borgir og samfélög og (12) Ábyrg neysla og framleiðsla.

Góð atvinna og hagvöxtur - stuðla að sjálfbærum hagvexti; arðbærum og mannsæmandi atvinnutækifærum. Reitir leggja áherslu á jöfn laun og jafnan rétt einstaklinga til atvinnu í stefnu sinni auk þess sem lögð er áhersla á að mannréttindi séu virt, svo sem réttindi á vinnumarkaði, réttur til félagafrelsis og góðs aðbúnaðar, og nær sú krafa til viðskiptavina félagsins og verktaka sem sinna verklegum framkvæmdum á vegum þess.

Sjálfbærar borgir og samfélög - Gera borgir og íbúðasvæði örugg, sjálfbær og öllum aðgengileg.
Með ábyrgu samvali leigutaka á starfssvæðum Reita vill félagið stuðla að bættu borgarumhverfi og minni þörf fyrir mengandi samgöngur. Leitast er við að auka kolefnisjafnandi gróður við bílastæði og á öðrum óbyggðum svæðum í samráði við leigutaka. Með þátttöku í samtökunum Grænni byggð styðja Reitir faglega umræðu og rannsóknir á sviði vistvæns skipulags og mannvirkjagerðar auk þess að stuðla að fræðslu um málefnið.

Ábyrg neysla og framleiðsla - Tryggja sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur.
Með þeim viðmiðum sem sett eru fram í stefnu Reita hvað varðar umhverfismál vilja Reitir m. a. leggja áherslu á ábyrga neyslu og framleiðslu. Reitir bauð fyrst íslenskra fasteignafélaga upp á græna leigusamninga á árinu 2013. Í slíkum samningum eru leigutakar m. a. hvattir til að velja umhverfisvottaðar rekstrarvörur og velja umhverfisvænni kosti þegar kemur að rekstri húsnæðis auk þess að skrá orku- og vatnsnotkun og leitast við að draga úr sóun.

Önnur verkefni í BREEAM vottunarferli

Kringlureitur, 1. áfangi

Deiliskipulagsvinna fyrsta áfanga Kringlureitsins, allt að 500 íbúðir, er unnin út frá BREEAM Communities staðlinum.

Uppbygging Hyatt Centric við Laugaveg

Framkvæmdir við hótelið eru unnar út frá BREEAM Construction staðlinum.

Kolefnisjafnað með Súrefni vottaðar einingar

Losun ársins var kolefnisjöfnuð með kaupum á vottuðum kolefniseiningum hjá Súrefni vottaðar einingar, en mótvægisaðgerðirnar stuðla að uppbyggingu vatnsorkuvirkjana í Víetnam.

Öll kolefnislosun, að undanskilinni losun vegna Reita þjónustu, sem tengist fasteignum sem Reitir hafa ekki umráð yfir, var kolefnisjöfnuð.

Nánar um Súrefni vottaðar einingar á www.surefni.is

Aukin fjölbreytni í atvinnulífinu með Specialisterne í Síðumúla

Reitir hafa stutt Specialisterne með húsnæði í Síðumúla í áratug. Markmiðið er að aðstoða ungt fólk á einhverfurófi við að komast á vinnumarkaðinn. Starfsemin í byggist á því að einstaklingarnir mæta daglega og fá aðstoð við að þjálfa upp styrkleika sína ásamt því að tekið er á veikleikum. Lokamarkmiðið er atvinnuþátttaka einstaklinganna og fer ríflega helmingur í vinnu.  Aðrir fara í áframhaldandi nám eða önnur úrræði.